Í tónlistarkennslu sinni styðst Jón við svokallaða Lichtenbergeraðferðafræði um uppruna hljóms í mannslíkamanum. Þetta er starfræn aðferð sem þróuð hefur verið í Lichtenberg í Þýskalandi. Aðferðin gengur út á algjöra og eðlislæga þróun raddarinnar sem hljóms og aðgreiningu hljóms og tóns án þess að utanaðkomandi truflun hafi of mikil áhrif. Einnig verður fjallað um kennslufræði Lampertis og Piero Tosi sem og Johanns Friedrichs Agricola. Boðið verður upp á hóptíma og fyrirlestra auk þjálfunar. Lágmarksfjöldi er 11 þátttakendur.
Meðleikari á námskeiðinu verður Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanóleikari. Guðrún Dalía kemur reglulega fram sem einleikari, í kammermúsík og ekki síst sem meðleikari söngvara. Hún stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart 2007. Síðar stundaði hún framhaldsnám í París. Guðrún hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Út hafa komið tveir söngdiskar með leik hennar, Sönglög Jórunnar Viðar með Helgu Rós Indriðadóttur og Gekk ég aleinn, lög Karls Ottós Runólfssonar með KÚBUShópnum. Guðrún Dalía starfar sem meðleikari við Tónlistarskóla Garðabæjar.
Dagsetning námskeiðsins: 25. – 28. júní 2020
Við bjóðum maka, fjölskyldur og vini sem ekki ætla að sækja námskeiðið velkomna með. Hægt er að fá pakka sem innihalda einungis gistingu. Þessir pakkar eru upplagðir fyrir þá sem vilja njóta þess sem nærumhverfi hótelsins hefur að bjóða.