"UA-129285830-1"

Skák í Borgarfirði

Hæfir öllum áhugamönnum í skák

Námskeiðið er hugsað fyrir alla áhugasama en gott er að kunna mannganginn í skák. Til að byrja með verður snögglega farið yfir mannganginn frá grunni. Þegar allir hafa náð góðum tökum á mannganginum þá erum við tilbúin til að taka næsta skref.
Á námskeiðinu munu þátttakendur tefla við hvert annað í bland við létta kennslu. Farið verður yfir almennar reglur sem gilda á skákmótum og við lærum að tefla með skákklukku. Auk þess verður farið yfir grunnatriði á borð við liðsskipan og einföld mát.
Að því loknu munu þátttakendur kynnast hugmyndum og nöfnum á helstu skákbyrjunum og hvernig útfæra eigi áætlun í miðtafli út frá byrjunartaflmennsku. Jafnframt verður lögð áhersla á að þátttakendur læri lykilatriði í endatöflum. Í lok námskeiðsins fá þátttakendur leiðbeiningar um hvernig þeir geti æft sig sjálfir heima, hafi þeir áhuga á.

Kennari: Birkir Karl Sigurðsson
Lengd námskeiðs: Þrír dagar samtals 18 klst
Dagsetning námskeiðs: 6 – 8 ágúst 2020.   

Dagur 1.

Þátttakendur hafa morguninn til að koma sér á staðinn. (Ef þátttakendur vilja fá auka nótt á hótelinu eða aðstoð við að koma sér á staðinn, vinsamlegast takið það fram við bókun). Námskeið hefst kl 10:00 á fyrsta degi. Við hefjum námskeiðið á að renna yfir mannganginn frá grunni. Þátttakendur munu læra að hreyfa alla mennina auk þess sem þeir læra reglur sem gilda um hrókeringu og framhjáhlaup. Þegar allir hafa náð góðum tökum á mannganginum þá erum við tilbúin í næsta skref.
Hádegisverður er á hótelinu og innifalinn í verði.
Eftir hádegismat munu þátttakendur á námskeiðinu tefla úti í sólinni (ef veður leyfir) við hvert annað í bland við létta kennslu. Ásamt því að læra almennar reglur sem gilda á skákmótum og að nota skákklukku. Auk þess munum við fara yfir grunnatriði á borð við liðsskipan og einföld mát.
Námskeiðinu lýkur um 17:00 þennan dag.

 

Dagur 2.
Eftir morgunmat eða um kl 09:00 hefst skákkennsla að nýju. Í dag munum við læra ýmis taktísk atriði og mátstöður í miðtafli og endatafli. Lögð er áhersla á að þáttakendur þrói með sér skilning á stöðuuppbyggingu, eins og t.d liðsskipan í byrjunum og úrvinnslu í miðtafli og læri að ljúka skákinni með máti. Hádegisverður er á hótelinu og innifalinn í verði.
Eftir hádegi munum við fara út í sólina og tefla ef veður leyfir.
Námskeiðinu lýkur um 17:00 þennan dag.
 
Dagur 3.

Eftir morgunmat eða um kl 09:00 heldur námskeiðið áfram. Í dag kynnast þáttakendur hugmyndum og nöfnum á helstu skákbyrjunum og hvernig útfæra eigi áætlun í miðtafli út frá byrjunartaflmennsku. Sömuleiðis verður farið yfir lykilatriði í endatöflum.
Hádegisverður er á hótelinu og innifalinn í verði.
Í lok námskeiðsins munu þáttakendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geti æft sig sjálfir heima. Ásamt upprifjun á því sem farið var yfir á námskeiðinu.
Námskeiðinu lýkur um kl 15:00.

 

Innifalið í verði:

  • Gisting: Tvær nætur á Hótel Bifröst í eins eða tveggja manna herbergjum.
  • Matur: Morgunmatur tvo morgna og þrír hádegisverðir. Kvöldverður er ekki innifalinn en hægt er að panta kvöldverð á hótelinu eftir eigin óskum. Upplýsingar um matseðil má sjá á heimasíðu hótelsins https://hotelbifrost.com/is/veitingastadur/
  • Kennsla: Birkir Karl Sigurðsson er fyrrum landsliðsþjálfari Ástralíu í skák, margfaldur Íslandsmeistari og fyrrverandi heimsmeistari ungmenna í skák. Birkir Karl er með skákkennararéttindi frá Alþjóðlega skáksambandinu FIDE. Þá hefur Birkir Karl keppt á fjölda skákmóta, bæði hérlendis og erlendis. Fram að áramótum 2018 starfaði hann sem landsliðsþjálfari ungmennaliðs Ástralíu.
    Hann hefur fengist við skákkennslu í sjö ár bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og víða á landsbyggðinni við að kenna skák en einnig að hjálpa þeim sem lengra eru komnir í þessari göfugu íþrótt.
    Viðtökur við námskeiðunum hans hafa ávallt verið mjög góðar og kennslan gengið vel.

Ekki innifalið í verði:

  • Drykkir: Ekki innifaldir
  • Ferðir sem farnar eru á meðan á námskeiði stendur.
  • Öll þjónusta utan þeirrar er nefnd er hér fyrir ofan.

Verð:

Á mann í tveggja manna herbergi frá ISK 58.000

Á mann í eins manns herbergi frá ISK 73.000

Fyrir frekari upplýsingar og bókanir vinsamlegast hafið samband á netfanginu info@reykjavikculturetravel.is.